Munirnir

a.              Munir kirkjunnar

Á altaristöflunni er mynd af kvöldmáltíðinni, máluð með olíu á tré af Jóni Hallgrímssyni (1741-1808) listamanni og málara sem bjó á Lóni í Viðvíkursveit á árunum 1783 til 1799 og á Hornbrekku á Höfðaströnd frá 1800-1808. Á töflunni stendur: Alltaris Tablann; er Gefinn, þessari Kÿrkiu af Oeconomus Hr. Jóni ÁrnaSyni Ao 1782. Ramminn er þykkur miðað við myndina, grænn að lit nema að ofan þar sem bríkin er máluð ljósgrárri marmaramálningu. Kristur og postularnir sitja við hvítdúkað borð. Kristur er rauðklæddur með mikinn ljósan geislabaug um höfuðið. Postularnir eru rauð- eða bláklæddir, nema einn sem er í grænum klæðum og situr sorgmæddur í faðmi Krists og annar sem er að teygja sig eftir könnu. Júdas stendur sakbitinn aftast með sjóðinn í hendinni.     

Prédikunarstóllinn er frá 1723. Á spjöldum hans eru myndir af fjórum guðspjallamönnunum og Jesú. Við myndirnar eru skráð nöfn: JOHNNNES, MATTHÆS, MARCUS, SLUCAS, SALVTER. Salvters (Salvators) sem á að tákna frelsarann er næstum horfin. Hinar eru enn góðar. Mennirnir eru rauð- og bláklæddir, allir berfættir og með alskegg. Allir eru þeir að skrifa guðspjöll nema kristur sem snýr fram með krossmark í hendi, en með hægri hendi á lofti. Hjá Jóhannesi er örninn, tákn hins eilífa og glæsta. Hjá Matteusi er vængjaður maður, engill, en guðspjall hans er um það hvernig Jesú tengdist kynslóðum mannanna, þegar Guð varð maður. Hjá Markúsi er ljón en guðspjall hans hefst á frásögninni um það er Jóhannes bjó meðal villidýra eyðimerkurinnar. Hjá Lúkasi er uxinn sem er táknmynd fórnanna. Við efri brún er skráð með gylltu á svartan lista: Givet Denne prædiche Stohl. Anno 1723. Siuerder Gislesen. Sá var sennilega Sigurður Gíslason, fæddur 1663. Hann var vinnumaður á Ytri-Brekkum þegar manntalið var tekið árið 1703 en árið 1714 var hann orðinn bóndi á Hofsstöðum. Stóllinn er úr furu og stendur á átthyrndum fæti sem málaður er með ljósgrárri, blárákóttri marmaramálningu. Kantar og rammar eru í rauðum litum.

Maríulíkneski úr eik. Hæð um 91 cm, breidd 34, dýpt 29 cm. Líkneskið var gefið kirkjunni „til minningar um allt það góða fólk sem virti kirkju sína og sannfæringu“. Í þólskum sið var kirkjan helguð Maríu Guðsmóður. Öruggt má telja að líkneski af Maríu hafi verið í Hofsstaðakirkju fram til 1551 og jafnvel lengur og tengdist henni mikil Maríudýrkun. Jafnvel enn í dag er heitið á Hofsstaða-Maríu. Líkneski það sem nú er í kirkjunni er eftirlíking af mjög gamalli Maríumynd sem varðveitt er á Þjóðminjasafni (Þjms.10944, á: https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=324397 ) sem sögð er úr Hofsstaðakirkju. Myndin (líkneskið) sýnir Maríu Guðsmóður með kórónu á höfði og Jesúbarnið í fanginu. Það heldur á hnetti í vinstri hendi, með þá hægri á lofti og snýr henni fram. Líkneskið er skorið af Sveini Ólafssyni myndaskurðarmeistara í Reykjavík og gefið til kirkjunnar 8. september 1996. Gefendur eru Margrét Jónsdóttir og Trausti Árnason, börn þeirra og fjölskyldur. Hún var ættuð frá Ytri-Hofdölum hann frá Syðri-Hofdölum í Hofsstaðakirkjusókn.

Kirkjuklukkurnar sem hanga í ramböldum sínum í kirkjuturni eru báðar úr koparblöndu en ólíkar eru þær að lagi og lit. Sú nýrri, minni, er með sverum járnkólfi. Á henni stendur Herda. Hin er belgvíð og há, sennilega ein af elstu klukkum Skagafjarðar miðað við stíleinkenni. Þvermál hennar er 36 cm. Hún mun hafa verið kólflaus um tíma, en kólfur var settur í hana þegar núverandi kirkjan var tekin í notkun árið 1905. 

b.              (Góðir gripir)

c.               Höklarnir

Þann 27. júlí árið 1998 færði listakonan Hrafnhildur Sigurðardóttir Hofsstaðakirkju tvo hökla að gjöf. Hún á ættir sínar að rekja til Hofsstaða, þó svo að henni hafi ekki verið það kunnugt þegar hún gerði þær ráðstafanir sem urðu til þess að hún fann höklunum sínum stað í Hofsstaðakirkju.

Hrafnhildur hannaði höklana vegna sýningar sem henni var boðið að taka þátt í vegna kirkjulistarhátíðar í Hallgrímskirkju árið 1993. Eftir sýninguna voru þeir til sölu í Kirkjuhúsinu, en seldust ekki. Ástæðu þess telur hún líklegasta að þeir hafi þótt frekar kvenlegir, enda litsterkir með íburðarmiklum skreytingum.

Komið var að tímamótum í lífi Hrafnhildar og mikið lá við. Hún ákvað að heita á einhverja litla kirkju á landsbyggðinni, þar sem kvenprestur væri þjónandi, og gefa henni höklana ef ákveðin atburðarás gengi eftir. Hún fékk óskir sínar uppfylltar og  hóf leit að kirkjunni og varð sú leit táknum hlaðin, að hennar mati.

Hrafnhildi þótti Skagafjörður góður kostur þar sem hún vissi að þangað ætti hún ættir sínar að rekja.

Í handbók kirkjunnar sá hún að Dalla Þórðardóttir prestur þjónaði  í fjórum sóknum í Skagafirði . 

Þar sá hún einnig að Elinborg Bessadóttir var sóknarnefndarformaður í Hofsstaðasókn. Hún var nokkuð viss um,  þar sem nöfnin þekkti hún úr föðurætt sinni, að þær væru skyldar, og reyndist það rétt vera.

Hún fékk upplýsingar um að Hofsstaðakirkja hafi á kaþólskum tíma verið Maríukirkja og að þar hafi verið Maríulíkneski sem mikil helgi hvíldi á. Hofsstaða-María, verndardýrlingur kirkjunnar, þótti góð til áheita og hétu landsmenn tíðum á hana þegar mikið lá við.

Hrafnhildi var tjáð að Hofsstaðakirkja  þætti enn áheitagóð og svo hafi lengi verið. Á endurbyggingartíma hennar, árin 1983-1991, hafi margir sýnt stuðning við framkvæmdina með áheitum og gjöfum.

 Henni komu á óvart upplýsingar, sem hún fékk sama dag og hún afhenti kirkjunni höklana, um að langalangafi hennar Björn Pétursson ásamt Sigurði bróður hans höfðu byggt núverandi kirkju á Hofsstöðum árið 1905.

Þetta var enn eitt táknið um, að höklunum hennar hafi alltaf verið ætlaður staður í Hofsstaðakirkju.

Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit. Ut elit tellus, luctus nec ullamcorper mattis, pulvinar dapibus leo.