Sagan

Hofsstaða  er fyrst getið í Landnámabók. Þar segir „ að Kollsveinn hinn rammi hafi numið land á milli  Þverár og Gljúfurár, búið á Kollsveinsstöðum en haft blót á Hofsstöðum.“

Á Sturlungaöld bjó Einar faxi á Hofsstöðum.  Hann var einn þeirra sem neyddist til að veita brennumönnum, sem komu frá Flugurmýri 1253, beina í mat þegar þeir hugðust fara í Hóla til að fá aflausn hjá Henreki biskupi.  Sagan segir að honum hafi ekki hugnast heimsóknin og gengið í hóp þeirra sem leituðu hefnda á brennumönnum.

Biskupsstóllinn á Hólum eignaðist Hofsstaði  snemma. Til er ráðsmannsreikningur um vinnuhjúakaup á  biskupsstólnum frá árinu 1388, en þá hafa Hofsstaðir verið nytjaðir frá Hólum.  Árið 1569 er jörðin ekki talin með stólsbúunum en sögð „ léð presti með 10 kúgildum“. Talið er að á þessum tíma hafi  Hofsstöðum verið skipt í tvær jarðir og Hofsstaðasel, sem fékk meira en helming lands jarðarinnar orðið til og áfram nýtt sem sel frá Hólum. Stólsjarðirnar voru seldar árið 1802

Kristian Kålund fornfræðingur ferðaðist um Ísland á árunum 1872 til 1874. Hann getur þess í bók sinni, Íslenskir sögustaðir, að hafa komið í Hofsstaði. Vestur af bænum hafi honum verið bent á stað þar sem álitið sé að hof Kollsveins hafi staðið. Hann fékk einnig upplýsingar um að í munnmælum hafi geymst sú sögn að á milli hofsins og Kollsveinsstaða hafi legið upphækkaður göngustígur. Vegalengd milli þessara staða eru um það bil fjórir km.

 Á Kollsveinsstaðahól austur af Syðri-Brekkum eru mjög fornar óskýrar tóftir, sem mögulega gætu verið bæjarrústir Kollsveins.

Árið 1886 er Sigurður Vigfússon fornfræðingur á ferð á vegum hins íslenska fornleifafélags. Hann lýsir hoftóft á Hofsstöðum og segir  að á hæð nokkurri er Valhöll heiti sjáist móta fyrir tóft sem sé 66 fet að lengd og 28 -30 fet að breidd. Segir hann tóft þessa kallast hoftóft og líkjast mjög öðrum hofminjum sem hann hafi rannsakað , auk þess sé örnefnið forneskjulegt og  gæti bent til þess  að þar hafi  Æsir verið blótaðir.

Valhöll er hæð skammt austan þjóðvegar , sunnan kirkjuheimreiðar á Hofsstöðum. Hoftóftin Valhöll var friðlýst af þjóðminjaverði árið 1926.

Hofsstaðabændur hafa löngum verið góðir hrossaræktendur. Frægast Hofsstaðahrossa á 20. öld var gæðingurinn Stígandi, sem samnefnt hestamannafélag ( stofnað 1945 ) tók nafn sitt af.

Gestaþjónusta er gömul saga og ný á Hofsstöðum. Fyrr á öldum vegna helgi staðarins og áheita, í dag vegna ferðaþjónustu.

Myndir af gömlu que
odiaspitibus esseque
nonsenis ventibus et volupietur, cullupt ataernatint, int vero et venis
essed quiam

Myndir af gömlu que
odiaspitibus esseque
nonsenis ventibus et volupietur, cullupt ataernatint, int vero et venis
essed quiam