Hofsstaðakirkja
Að mestu er ókunnugt um kirkjubyggingar fyrri tíðar á Hofsstöðum. Árið 1832 var reist þar vönduð timburkirkja með torfveggjum og torfi á þaki. Hún stóð í hringlaga kirkjugarði og voru veggir hans hlaðnir úr torfi.
Daninn Daníel Bruun, sem ferðaðist um Íslands á árunum 1896 – 1910 við rannskóknir íslenskra menningarminja kom í Hofsstaði árið 1898. Með honum í för var landi hans listamaðurinn Jóhannes Klein. Uppdrættir hans og ljósmyndir af kirkjunni sýna fallegt og vandað hús, byggt af Jóni Samsonarsyni, sem var þekktasti forsmiður Skagfirðinga á sinni tíð.
Í bókinn Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár, sem er þýðing úr verkum Daníels Bruun segir, að Hofsstaðakirkja hafi verið sérstök vegna skreytinga sem söguð var úr tré. Þá voru milligerðir á milli kórs og framkirkju málaðar, sem ekki var venja þess tíma. Víðimýrarkirkja í Skagafirði frá árinu 1834 er sömu gerðar, einnig byggð af Jóni Samsonarsyni. Hún er í umsjá þjóðminjavarðar, hefur varðveist í upprunalegri mynd og er enn í dag sóknarkirkja Víðimýrarsóknar.
Árið 1900 vísiteraði þáverandi biskup Hallgrímur Sveinsson kirkju og söfnuð á Hofsstöðum og segir kirkjuna vera að mestu leiti ómálaða,“lítilfjörlega og með fornu sniði,“ og lagði til að ný kirkja yrði byggð. Árið 1905 var kirkjan rifin og núverandi timburkirkja byggð á sama stað í kirkjugarðinum.
Hægt er að skoða tvo pílára úr þeirri kirkju (sem reist var 1832). Stærri pílárinn BSk. 2005:8 (92,5 cm hár og 22,5 cm breiður – sjá https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=198554 ) er með gagnskorinni kringlu af blómteinungum í miðju og hjörtum sem snúa hvort á móti öðru. Minni pílárinn BSk. 2005:9 (77,5 cm hár og 13,6 cm breiður – sjá https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=198555 ) er einnig með hjörtum beggja vegna sporöskjulaga miðjukringlu sem skreytt er þremur hringlaga götum. Báðir eru pílárarnir rauðmálaðir með grænum tilbrigðum. Samkvæmt teikningu Johannesar Klein frá 1898 var hærri pílárinn í þilinu yfir kórdyrum en sá lægri í milliþilinu norðanmegin í kirkjunni.
Núverandi kirkja á Hofsstöðum var byggð árið 1905 af þeim bræðrum og bændum á Hofsstöðum Birni og Sigurði Péturssonum. Þeir erfðu jörðina eftir foreldra sína og bjuggu á Hofsstöðum til áranna 1912-1913. Yfirsmiður kirkjubyggingarinnar var Jón Björnsson smiður frá Ljótsstöðum.
Jóhannes Björnsson eignaðist hálfan hlut föður síns í jörðinni árið 1912 og bjó á Hofsstöðum til ársins 1932. Hann afhenti söfnuðinum kirkjuna árið 1935. Viðhald kirkjunnar virðist hafa verið nokkuð gott framan af, en um 1980 var hún farin að láta verulega á sjá og ljóst að ekki mætti dragast mikið lengur að hefja kostnaðarsamar endurbætur eða að öðrum kosti að afleggja kirkjuna .
Á aðalsafnaðarfundi 2. apríl 1981 var nýrri sóknarnefnd falið að láta athuga ástand kirkjunnar og kanna möguleika á útvegun fjármagns. Ef niðurstaða þeirrar athugunar reyndist jákvæð, að mati safnaðar, yrði hafist handa um endurbætur hennar.
Kirkjan reyndist mun ver farin en reiknað hafði verið með og ekki sýnt, að það fjármagn sem þyrfti til verksins lægi á lausu. Á þessum tíma voru greiðendur sóknargjalda um 40 talsins.
29. janúar 1983 barst sóknarnefndinni bréf frá kunnum Skagfirðingi, Birni Egilssyni. Honum hafði borist til eyrna að leggja ætti Hofsstðakirkju niður vegna fámennis í sókninni.
Bréfið er svohjóðandi: “ Heiðraða sóknarnefnd Hofsstaðsóknar. Ég undirritaður vil hér með gefa Hofsstðakirkju 60 þúsund krónur, þessi fjárhæð skal notuð til að endurbyggja kirkjuna og vænti ég þess að fyrir þessum fjármunum verið unnið á þessu ári. Virðingarfyllst, Björn Egilsson frá Sveinsstöðum”.
Annan febrúar sama ár birtist grein eftir hann í héraðsfréttablaðinu Feyki, og ber hún yfirskriftina Hofsstaða María. Vitnar hann þar í bók Selmu Jónsdóttur listfræðings, Saga Maríumyndar, sem fjallar um uppruna og gerð Maríumynda í Evrópu á 12. og 13. öld. Í byrjun bókarinnar er umfjöllun um Hofsstaða Maríu sem var verndardýrlingur Hofsstaðakirkju í kaþólskum sið og var Hofsstaðakirkja eina kirkjan í Skagafirði sem helguð var Maríu guðsmóður einni næst guði.
Í lok greinarinnar segir Björn.” Það er vitað mál, að fámennir söfnuðir geta ekki byggt eða endurbyggt kirkjur nema aðstoð komi annarsstaðar frá. Ætla Skagfirðingar að horfa á það aðgerðarlausir að Hofsstaðakirkja verði lögð niður. Fari svo að hætt verði að syngja messur á Hofsstöðum verður brotið blað í menningarsögu hérðasins.” Í framhaldinu lagði sóknarnefnd til að gert yrði við kirkjuna og má til sanns vegar færa að áskorun og fjárframlag Björns hafi ráðið nokkru þar um.
Árið 1983 var ákveðið að steypa kjallara nokkru sunnar er kirkjan stóð og færa kirkjuna síðar yfir á hann. Undirbúningur hófst síðla sama árs. Kjallarinn var hugsaður sem safnaðarheimili, auk þess sem hann rúmaði snyrtingu og geymslu. Kirkjan tekur 60 manns í sæti og eru 30 sæti í safnaðarheimilinu.
Er farið var að undirbúa kirkjuna til fluttnings kom í ljós að mun meiri fúi var í fótstykki og grind henna en reiknað hafði verið með og húsið ekki flutningshæft fyrr en viðgerð á þessu hluta hafi farið fram.
Margir undruðust að kirkjan hafi staðist þau ofviðri sem dunið hafa á henni um tíðina, en í ljós kom þegar ytra byrðið var fjarlægt að bilið á milli uppistaða var fyllt með grjóti upp undir glugga, auk þess sem hún var hlekkjuð niður með sverum keðjum.
Kirkjan var flutt yfir á nýju undirstöðurnar 26. nóvember 1985. Hún var tekin í notkun á ný með hátíðarguðþjónustu 5 maí 1991.
Hversu langan tíma endurbætur tóku helgaðist af því fjármagni sem var til ráðstöfunar ár hvert.
Fljótlega kom í ljós að margir létu sér afdrif kirkjunnar varða, þar á meðal brottfluttir úr sókninni, ekki síst þeir sem áttu ættir sínar að rekja til staðarins, og studdu söfnuðinn með áheitum og gjöfum þau átta ár sem verkið tók.
Yfirsmiður verksins var Ingimar Björnsson frá Framnesi.
Í sóknarnefnd voru:
Elinborg Bessadóttir formaður Hofsstaðseli.
Trausti Kristjánsson gjaldkeri Syðri-Hofdölum.
Frímann Þorsteinsson ritari Syðri-Brekkum.
![](https://hofsstadakirkja.is/wp-content/plugins/elementor/assets/images/placeholder.png)
Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit. Ut elit tellus, luctus nec ullamcorper mattis, pulvinar dapibus leo.